Innlent

Skortur á samvinnu í kerfinu

MYND/GVA

Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir allt í lausu lofti varðandi geðsjúka og aðstandendur þeirra, hvort sem um er að ræða foreldra eða börn. Afleiðingar þess séu oft skelfilegar. Sveinn segir þekkingarleysi á geðsjúkdómum mikið í þjóðfélaginu en að alvarlegast sé hve illa þeir aðilar sem sinna eigi þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu vinni saman.

„Mér finnst einna alvarlegast að kerfin skuli ekki vinna betur saman í þeim málum þar sem þó er vitað um vandamálin," segir Sveinn. „Þess vegna ber mönnum skylda til að takast á við stærsta meinið sem er að kerfin vinna ekki nægilega vel saman." Hann segir að víða sé pottur brotinn í þeim málum og að ríki og sveitarfélög séu alls ekki nægilega meðvituð um mál hvors annars.

„Geðhjálp hefur sótt það fast að málefni geðsjúkra séu á einni hendi," segir hann og bendir á Akureyri þar sem málum hefur verið þannig fyrirkomið að sveitarfélaginu er gert skylt að sinna málefnum einstaklingsins frá A til Ö. „Hér í Reykjavík er það þannig að félagsmálaráðuneytið sinnir búsetumálum geðfatlaðra en borgin sinnir hinum sem ekki hafa fengið þann stimpil," segir Sveinn og bendir á að margir geti týnst í kerfinu þar sem fólk geti glímt við geðræn vandamál án þess að hafa verið greint geðfatlað.

„Ríkið segir nei og borgin segir að hann glími samt við geðsjúkdóm og þannig lendir einstaklingurinn einfaldlega á götunni. Við þurfum að hafa þetta á hendi eins aðila eða kerfis þannig að það verði skilvirkt."

Sveinn segir vandamálið liggja í ósýnileika sjúkdómsins. „Geðsjúkur maður getur verið fær í flestan sjó einn daginn en á við kornabarn þann næsta. Þess vegna verður öryggisnetið að vera þéttara en það er í dag."

Að mati Sveins er tilraunin á Akureyri margbúin að sanna sig. „Ég skil ekki hvers vegna þetta hefur ekki verið yfirfært á önnur sveitarfélög þar sem þetta er greinilega að skila árangri. Við þurfum einfaldlega á viðhorfsbreytingu að halda í öllu kerfinu."


Tengdar fréttir

Harma mjög að fjölskyldan skuli upplifa þetta

„Ég harma það mjög að fjöldskyldan skuli upplifa þetta. Það verður farið í að skoða þetta með starfsmönnum sem komu að málinu og í framhaldinu verður haft samband við fjölskylduna," segir Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, um gagnrýni á hendur stofnuninni vegna móður tveggja drengja sem lést af völdum eiturlyfjaneyslu í upphafi mánaðarins.

Trúi ekki að hún hafi ætlað að svipta sig lífi

Helga Guðrún Hlynsdóttir, náin vinkona og nágranni hinnar ungu tveggja barna móður sem lést af völdum eiturlyfja í byrjun maí trúir því ekki að vinkona hennar hafi ætlað að svipta sig lífi. Hún segir stúlkuna hafa verið góða móður sem beið eftir því að fá drengina sína tvo heim til sín fyrir fullt og allt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×