Innlent

Hæstiréttur ómerkti úrskurð um nýja rannsókn á kynferðisbroti

Hæstiréttur hefur ómerkt úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur að hefja skuli að nýju rannsókn á máli þar sem karlmaður er grunaður um kynferðisbrot gegn ungri dóttur sinni.

Lögregla hóf rannsókn á málinu í fyrrasumar en ákvað í lok febrúar á þessu ári að hætta henni þar sem ekkert styddi fullyrðingar móður stúlkunnar um að hún hefði sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu föður síns.

Ríkissaksóknari ákvað hins vegar fyrr í sumar að hefja aftur rannsókn á málinu eftir ábendingar um framburð stúlkunnar hjá sálfræðingi. Af því tilefni óskaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu eftir því að skýrsla yrði tekin af dóttur mannsins fyrir dómi.

Maðurinn bar þá ákvörðun undir héraðsdóm sem staðfesti að málið skyldi tekið upp að nýju í samræmi við ákvörðun ríkissaksóknara. Hins vegar komst Hæstiréttur að því að þar sem héraðsdómur hefði ekki leyst úr þeirri kröfu er borin hefði verið undir dóminn væri óhjákvæmilegt að ómerkja úrskurðinn og leggja fyrir héraðsdóm að taka kröfu mannsins til efnislegrar úrlausnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×