Innlent

Ríkisendurskoðun styður aðskilnað - alvarlegur samskiptavandi aðila

Ríkisendurskoðun styður áform Björns Bjarnasonar.
Ríkisendurskoðun styður áform Björns Bjarnasonar. MYND/Pjetur

Ríkisendurskoðun telur rétt að hrinda tillögum dómsmálaráðuneytisins um aðskilnað tolls, löggæslu og flugverndar hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum í framkvæmd enda hafi hún áður vakið máls á því að að breyta núverandi skipan mála. Þetta kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt stofnunarinnar sem ráðist var í að beiðni Alþingis.

Í skýrslunni segir Ríkisendurskoðun einnig að tillögur ráðuneytisins stuðli að því að þau ráðuneyti sem lögum samkvæmt fara með forræði tollgæslu og flugverndar fái skýrari aðkomu að markmiðssetningu og ákvörðun þjónustustigs á þessum sviðum sem og ábyrgð á nauðsynlegum fjárveitingum til þeirra.

Unnið í sameiningu að breytingum

Að mati Ríkisendurskoðunar hefur verið alvarlegur samskiptavandi milli aðila frá því að LRS færðist undir dómsmálaráðuneytið og snýst hann ekki eingöngu um boðaðar breytingar á embættinu. Mikilvægt sé að trúnaður og traust ríki eftir að verkefnum þess hefur verið breytt. Þótt ekki sé fullur samhljómur milli málsaðila um ágæti fyrirhugaðra breytinga telur Ríkisendurskoðun eftir að hafa rætt við þá að þeir hafi ákveðið að leggja ágreining sinn til hliðar og vinna í sameiningu að framgangi þeirra breytinga sem til stendur að gera á skipulagi og rekstri embættisins.

Stjórnvöld þurf að meta þörf á toll- og löggæslu

Ríkisendurskoðun segir breytt stjórnun og fjármögnun verkefna kalli á að stjórnvöld taki afstöðu til þess hversu mikla lög- og tollgæslu þarf vegna starfseminnar á flugvellinum. Verði niðurstaðan að halda sem næst óbreyttum mannafla er ljóst að auka þarf fjárveitingar til löggæsluverkefna um 315 milljónir króna til að bæta upp tekjutapið og ná rekstri löggæsluhluta embættisins hallalausum án frekari sparnaðaraðgerða.

Nokkrar deilur hafa verið um áform Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra að skilja að toll og lögreglu á Suðurnesjum og hefur þingflokkur Samfylkingarinnar lagst gegn hugmyndunum og meðal annars beðið eftir úttekt Ríkisendurskoðunar.

Uppsafnaður fjárhagsvandi

Tillögur dómsmálaráðherrar eru tilkomnar vegna fjárhagsvanda embættisins á Suðurnesjum en embættið varð til í upphafi síðasta árs. Ríkisendurskoðun bendir á að fjárhagsvandinn sé ekki nýtilkominn því embætti Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli hafði verið rekið umfram fjárheimildir um langt árabil og var uppsafnaður halli 158 milljónir við upphaf síðasta árs.

Ríkisendurskoðun segir enn fremur að þó að ef verkefnum embættisins verði breytt komi til álita að því verði áfram falin dagleg stjórnun verkefna á sviði tollgæslu og flugverndar með þjónustusamningum.

„Ákveðin fag- og fjárhagsleg rök eru bæði að baki núverandi skipulagi og kynntum breytingum. Verði af breytingum á verkefnum minnkar þó að líkindum ávinningurinn hjá LRS en eykst hjá þeim stofnunum sem taka við toll- og öryggisgæslu. Þann ávinning þarf að meta," segir Ríkisendurskoðun einnig.

Skýrsluna í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×