Innlent

Raflistahátíð í nánd

Mynd tekin af heimasíðu RAFLOSTs.
Mynd tekin af heimasíðu RAFLOSTs. MYND/Raflost

Raflistahátíðin RAFLOST verður haldin dagana 30. apríl - 2. maí. Hátíðin er sambland af tónleikum og námskeiðum þar sem fram koma erlendir og innlendir raflistamenn í fremstu röð. Frá þessu segir í fréttatilkynningu frá Listaháskóla Íslands.

Heiðursgestur hátíðarinnar er hið heimsþekkta bandaríska raftónskáld Morton Subotnick. Hann mun halda fyrirlestur í hádeginu á miðvikudaginn og tónleika fimmtudagskvöldið 1. maí. Fyrirlesturinn verður í fyrirlestrarsal Listaháskóla Íslands í Laugarnesi en tónleikarnir verða í Sölvhóli, tónleikasal Tónlistardeildar LHÍ við Sölvhólsgötu. Á tónleikunum verða flutt ný verk eftir hann með hjálp fartölvu og píanóleikarans Tinnu Þorsteinsdóttur.

Tón- og myndleikar í Möguleikhúsinu

Aðrir erlendir gestir verða vídeólistamennirnir Teijo Pellinen frá Finnlandi og Monika Frycova frá Tékklandi. Þau munu koma fram ásamt íslenskum listamönnum á tón- og myndleikum í Möguleikhúsinu við Hlemm föstudagskvöldið 2. maí.

Á þeim tón- og myndleikum mun Pellinen sýna gagnvirkt sjónvarp og Frycova mun sýna listir sínar, auk þess sem fram koma margir íslenskir listamenn. Má þar nefna Vélmennaóperu Kristins R. Þórissonar frá Háskólanum í Reykjavík, hljóð- og myndsveitina Netsky sem er skipuð raflistakennurum LHÍ, Tónlistarskóla Kópavogs og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, vídeólistamanninn Harald Karlsson, sveitina Raflosta sem er skipuð nemendum á skynjaranámskeiði hátíðarinnar, auk rafhljómsveitarinnar Hestbaks, sem er nýkomin frá tónleikahaldi í New York.

Auk tónleikanna verður haldið námskeið í notkun ýmissa tækja og skynjara sem nýtast við flutning raftónlistar og rafmyndlistar. Þátttakendur læra að leika á þessi tæki og munu flytja saman nýtt frumsamið rafverk föstudaginn 2. maí.

Aðstandendur RAFLOSTs eru kennarar og nemendur í raftónlist og nýmiðlun frá Listaháskóla Íslands, Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Háskólanum í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×