Innlent

Fangelsismálastjóri ósáttur við Kvíabryggjufrétt DV

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Páll Winkel fangelsismálastjóri
Páll Winkel fangelsismálastjóri

Páll Winkel fangelsismálastjóri gagnrýnir vef- og prentmiðil DV fyrir að birta í dag frétt um fanga í fangelsinu Kvíabryggju sem sagður er stunda þar líkamsrækt af atorkusemi. Rekur blaðið feril fangans og segir hann stórhættulegan auk þess að birta myndir.

Fangelsismálastjóri segir í athugasemd sem hann sendi frá sér að fréttin sé að stórum hluta röng en viðkomandi fangi sé hvorki né hafi nokkurn tímann verið vistaður á Kvíabryggju. Hins vegar stundi fangar á Kvíabryggju líkamsrækt og hafi til þess fullan rétt eins og fangar alls staðar á landinu. Eins er Páll ósáttur við myndsendingar úr fangelsum á Netinu.

„Það var sett af stað tilraunaverkefni á Kvíabryggju um að fangar fengju aðgang að Netinu tímabundið og þetta hefur ekki komið vel út eins og þessi frétt ber með sér auk þess sem önnur tilvik hafa komið upp," útskýrir Páll.

„Við erum að skoða það núna hvort við eigum að breyta fyrirkomulaginu og takmarka aðgengi að einhverju leyti en sem stendur er allt lokað á Kvíabryggju," sagði Páll. Hann sagði að eins og er væri eingöngu netaðgengi í skólastofu á Litla-Hrauni og annars staðar þar sem nám er stundað.

Að lokum sagðist Páll ekki skilja hvaða tilgangi það þjónaði að nafngreina manninn í DV. „Ég sé engan tilgang með því né þessari fréttaumfjöllun um meintan fanga á Kvíabryggju," sagði hann að skilnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×