Innlent

Össur segir Hönnu Birnu vera ístöðulausa gagnvart Ólafi

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, er ístöðulaus gagnvart Ólafi F. Magnússyni, borgarstjóra, að mati Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra.

Hann segir Hönnu Birnu ekki hafa náð neinum árangri við að lyfta upp fylgi flokksins í Reykjavík. Þetta kemur fram á vefsíðu iðnaðarráðherra.

Össur segir að þrátt fyrir virðingu embættismanna og andstæðinga hafi Hönnu Birnu ekki tekst henni að breyta ásýnd flokksins. ,,Hún nær engum árangri við að lyfta fylginu. Fátt virðist benda til nokkurs sem getur komið í veg fyrir að Samfylkingin og VG vinni stórsigur í næstu borgarstjórnarkosningum, og hefji nýtt skeið vinstri stjórnar í borginni."

,,Vafalítið hanga Sjálfstæðismenn á þeirri von, að þegar hún verður loksins borgarstjóri í krafti hrossakaupanna sem ýta Ólafi innan skamms út úr skrifstofu borgarstjóra, og henni inn, muni hlutirnir breytast," segir Össur sem telur að skiptin muni litlu breyta. Hann telur Hönnu Birnu hafa veikst mikið í samstarfi sínu við Ólaf F. Magnússon.

Össur spáir því að Ólafur muni reynast Sjálfstæðisflokknum erfiður þegar hann verður orðinn óbreyttur borgarfulltrúi. Ákvarðanir Ólafs og framkoma hafa verið sérkennilegar, að mati Össurar.

,,Aftur og aftur hefur komið í ljós, að hann þröngvar án samráðs fram ákvörðunum, sem eru settar fram sem einskonar boð að ofan. Yfirleitt kemur í ljós eftir á, að hann hefur ekki einu sinni haft fyrir því að leita samstarfs við samstarfsflokkinn. Nægir að nefna húsin við Laugarveg, Bitruvirkjun, miðborgarstjórann - og nú síðast ákvörðun hans um að reka Ólöfu Guðnýju Valdemarsdóttur úr skipulagsráði borgarinnar," segir Össur.

Össur segir Ólaf vera myllusteininn sem mun tryggja valdaleysi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn sem og ístöðuleysi Hönnu Birnu gagnvart Ólafi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×