Innlent

Mænuskaddaðir saka yfirvöld um mannfyrirlitningu

Samtök mænuskaddaðra mótmæla harðlega þeirri mannfyrirlitningu sem þeir segja að lýsi sér í útboði Heilsugæslunnar þar sem auglýst er eftir rekstraraðila til þess að veita tímabundið 12 mikið fötluðum einstaklingum búsettum í Reykjavík, þjónustu við persónulega umhirðu.

Íbúar í húsi SEM samtakanna að Sléttuvegi 3, notendur heimahjúkrunar, félagar og stjórn SEM funduðu um málið í gær. Í bréfi sem fundurinn sendi til yfirvalda segir að verið sé að fara aftur til fortíðar og þvert á allar hugmyndir í nútímasamfélagi. Það sé gengið í berhögg við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun.

Þá segir að ekkert samráð hafi verið haft við þá sem eigi að njóta þjónustunnar. Ekki hafi verið tekið tillit til 22. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um virðingu fyrir einkalífi. Þar segir að aðildarríkin skuli tryggja að farið sé með upplýsingar um persónulega hagi, heilsufar og endurhæfingu fatlaðra sem trúnaðarmál á sama hátt og gildi um aðra.

Þá segja samtök mænuskaddaða að í þeim löndum sem Íslendingar beri sig gjarnan saman við, svo sem Norðurlöndin sé fyrir löngu komið valfrelsi fyrir mikið fatlaða einstaklinga um hvernig þeirra aðstoð sé háttað.

Guðmundur Magnússon, stjórnarmaður í SEM, segir að eftir að bréfið hafi verið sent út hafi Þórunn Ólafsdóttir hjúkrunarforstjóri Heilsugæslunnar haft samband. Fundað verði um málið á fimmtudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×