Innlent

Atvinnuleysisbætur hækka 1. janúar

Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur í samráði við forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra ákveðið að flýta hækkun atvinnuleysisbóta sem átti að koma til framkvæmda 1. mars næstkomandi. Hækkunin er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 og var gerð í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Grunnatvinnuleysisbætur eru nú um 136 þúsund krónur. Gert var ráð fyrir að þær myndu hækka um 13.500 krónur þann 1. mars næstkomandi til samræmis við lægstu laun á almennum vinnumarkaði. Nú hefur verið ákveðið að þessi hækkun gildi frá 1. janúar næstkomandi í stað 1. mars. Samhliða munu hámarkstekjutengdar atvinnuleysisbætur hækka um sama hlutfall í samræmi við fyrrnefnda yfirlýsingu og verða þá 242.636 kr. á mánuði í stað 220.729. kr. áður. Félags- og tryggingamálaráðherra hefur undirritað reglugerð þessa efnis.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×