Innlent

Flogið með eftirlýsta Frakkann heim

Andri Ólafsson skrifar

Eftirlýstur franskur ríkisborgari sem handtekinn var hér á landi í byrjun júní var fluttur til Frakklands aðfaranótt föstudagsins síðasta.

Fulltrúar Alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra handtóku hann á fimmtudaginn síðasta og fluttur á Leifsstöð þar sem tveir franskir lögreglumenn voru komnir til að fylgja frakkanum heim.

Þar bíða hans ákærur vegna gruns um að hann hafi dregið að sér um 24 milljónir frá ýmsum fyrirtækjum með tölvusvindli.

Frakkinn var búsettur hér á landi í um tvö ár áður en frönsk yfirvöld komust á snoðir um að hann væri hér að finna. Þau fóru umsvifalaust fram á að Frakkinn yrði framseldur. Hann var því skömmu síður handtekinn á kaffihúsi í miðborg Reykjavíkur og úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Hæstiréttur felldi gæsluvarðhaldið hins vegar úr gildi og gekk Frakkinn því laus á meðan dómsmálaráðuneytið fjallaði um framsalsbeiðnina. Dómsmálaráðuneytið féllst svo á framsalsbeiðni Frakka og Frakkinn sjálfur mótmælti ekki þeirri ákvörðun.

Frakkinn er ekki grunaður um að hafaf framið nein brot á meðan hann dvaldi hér á landi.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×