Innlent

Galloper jeppi kórstjórans kominn í leitirnar

Breki Logason skrifar
Jeppi Jóns Kristinns var óskemmdur þegar hann fannst.
Jeppi Jóns Kristinns var óskemmdur þegar hann fannst.

Vísir sagði frá því í gær að Galloper jeppa Jóns Kristinns Cortez kórstjóra hefði verið stolið þegar hann var við tónleikahald í Fríkirkjunni á sunnudag. Tæpum tveimur sólarhringum frá stuldinum fannst bíllinn opinn og óskemmdur þar sem honum hafði verið snyrtilega lagt í stæði við Listasafn ASÍ í Ásmundarsal við Freyjugötu. Það var tengdamóðir dóttur kórstjórans sem fann bílinn.

„Sigríður Davíðsdóttir var, ásamt vinkonu sinni, að fara á sýningu í Listasafni ASÍ í Ásmundarsal við Freyjugötu. Sem þær renna þar í hlað var hún að segja vinkonunni frá vandræðum mínum og hafði yfir bílnúmerið. Í þeim töluðum orðum lítur hún út um gluggann og sér þá númerið margumrædda! Var bílnum lagt þar snyrtilega í stæði og heill að sjá," skrifar Jón Kristinn í bréf sem hann sendir á samferða menn sína.

„Sigríður hringdi í lögregluna sem var eflaust fegin að bíllinn var fundinn en sagðist ekkert hafa meira með málið að gera þar sem bíllinn væri opinn og óskemmdur. Svo ég þarf ekki að hreinsa fingrafaraduft af stýri eða skiptistöng eða öðrum þeim flötum sem þjófur gæti hafa snert! Og þjófurinn getur verið rólegur," skrifar Jón Kristinn.

Jón Kristinn þakkar þeim fjölmörgu samferðarmönnum sínum sem veittu honum lið í leitinni.

„Svo kemur það skemmtilega. Sigríður Davíðsdóttir, sú sem fann bílinn, er tengdamóðir dóttur minnar!"




Tengdar fréttir

Jeppa kórstjóra stolið við Fríkirkjuna

Jón Kristinn Cortez tónlistarkennari og kórstjóri var við tónleikahald í Fríkirkjunni í Reykjavík á sunnudag. Á meðan tónleikahaldinu stóð var bílnum hans stolið. Þetta gerðist á milli klukkan 17:00 og 18:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×