Innlent

Ingibjörg Sólrún með góðkynja mein í höfði

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra er með góðkynja mein í höfði. Þetta kom í ljós við rannsókn á Mount Sinai sjúkrahúsinu í Bandaríkjunum.

Þangað varð Ingibjörg flutt eftir að hún fékk aðsvif í pallborðsumræðum í fyrradag á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að meðhöndla þurfi meinið og verður það gert á næstu dögum og vikum.

Ráðherra mun engu að síður taka þátt í dagskrá í tengslum við allsherjarþingið. Læknar telja ekki þörf á langri fjarveru ráðherra frá vinnu vegna þessa.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu stóð til að Ingibjörg yrði í New York fram á mánudag, meðal annars til að vinna að framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, en hún kemur væntanlega heim á föstudag. Reiknað er með því að hún fari þá í meðferð við meinum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×