Lífið

Tvístraðar og samsettar fjölskyldur eru normið núna

„Nú hef ég gefið út bækur í tíu ár og þar af verið á föstum launum í um það bil fimm ár þannig að vissulega hefur það stundum reynt á úthaldið í gegnum árin, sérstaklega að þurfa að vinna önnur verkefni til að fjármagna vinnuna sína," segir Auður.
„Nú hef ég gefið út bækur í tíu ár og þar af verið á föstum launum í um það bil fimm ár þannig að vissulega hefur það stundum reynt á úthaldið í gegnum árin, sérstaklega að þurfa að vinna önnur verkefni til að fjármagna vinnuna sína," segir Auður.

Í nýrri skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Vetrarsól, teflir hún saman ólíkum heimum og varpar fram spurningum um lífsgildi, lífsviðhorf og lífsblekkingu.

Vísir hafði samband við Auði og spurði hana út í rithöfundastarfið.

„Í dag á ég erfitt með að hugsa mér lífið án þess að vera rithöfundur. Að minnsta kosti er ég eins sátt í mínu starfi og framast er unnt."

„Auðvitað fylgja því hæðir og lægðir. Verstu lægðirnar eru sennilega tímabilin þegar hugmyndirnar skreppa úr hendi eða þegar maður situr fyrir framan áttatíu þéttskrifaðar tölvusíður og ákveður allt í einu að það sé nauðsynlegt að byrja upp á nýtt."

„En þannig er nú bara starfið í eðli sínu og sem betur fer ganga lægðirnar yfirleitt hratt yfir. Það tekur líka á taugarnar að vinna launalaust."

„Á móti kemur að inn á milli hreppir maður óvænta glaðninga þegar bækurnar seljast vel eða þegar þær eru seldar þriðja aðila í þýðingar eða til kvikmyndagerðar og leikritunar."

„Loks getur tekið á taugarnar að sitja einn heima yfir gagnrýnni umsögn um verkið sitt en það venst þó og er auðveldara í dag en á árum áður. Maður uppgötvar að slíkt er nánast óhjákvæmilegt með skáldverk."

„Hæðirnar eru miklu fleiri en lægðirnar. Í rauninni er ég ástfangin af starfinu mínu. Ég lifi og hrærist í því frá morgni til kvölds líka þegar ég á að vera í fríi."

„Meðan ég skrifaði söguna las ég meðal annars stöðugar fréttir um ruglið í borgarstjórninni auk þess að velta mér upp úr pirringnum yfir ástandinu í Írak og öðrum katastrófum," segir Auður.

Vetrarsól

„Sagan Vetrarsól varð þannig til að mig langaði að skrifa þriðju söguna um samskipti konu við barn sem hún ætti ekki en söguhetjurnar í Fólkinu í kjallaranum og Tryggðarpanti eiga það sameiginlegt, enda þótt sögurnar séu fullkomlega sjálfstæðar að öðru leyti," segir Auður.

„Í Fólkinu í kjallaranum varð konu umhugað um son systur sinnar sem var sokkin í vímuefnaeyslu. Í Tryggðapanti verður konu umhugað um barn leigjanda síns og þannig fer efnuð kona að bítast um barn við þá fátæku."

„En mér fannst vanta sögu um konu sem kynnist barni maka síns svo ég afréð að að skrifa þriðju og síðustu bókina með þessu þema."

„Mér finnst efnið áhugavert því nútímasamfélagið hefur að ýmsu leyti farið fram úr tilfinningalífi fólks. Tvístraðar og samsettar fjölskyldur eru normið núna og því fylgja alls konar tilfinningar sem passa ekki alltaf inn í hugarheim okkar um ákjósanlegt fjölskyldulíf."

„Í nokkra mánuði bjástraði ég við að skrifa um söguhetjuna í allt öðru umhverfi og með öðrum söguþræði. En einn daginn sat ég í stofunni heima í Barcelona og rak augun í ritgerð eftir Katrínu Jakobsdóttur um íslenskar sakamálasögur (Glæpurinn sem ekki fannst)."

„Þá fékk ég hugmyndina að því að söguhetjan væri að vinna í bókaforlagi á Íslandi og ynni við að selja bækur í stórmarkaði milli þess sem hún hefði umsjón með glæpasagnanámskeiði í vinnunni sinni og færi þar með að rýna í líf sitt með augum glæpasagnahöfundar," segir Auður.

Hvað þykir þér best við jólin? „Það besta við jólin er að finna friðinn yfir kertaljósi. Borða góðan mat með þeim sem manni þykir vænst um. Og þakka fyrir að hafa fengið að lifa enn eitt árið með þessum sömu manneskjum," segir Auður áður en kvatt er.

Heimasíða Auðar.

Vetrarsól.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.