Innlent

Vonast til að nýtt lyf dragi úr dauðsföllum

Magnús Már Guðmundsson skrifar

Eiríkur Jónsson, yfirlæknir þvagfæraskurðlækningadeildar Landspítlans, telur að taka beri fréttum um nýtt lyf sem gætu aukið lífslíkur manna með krabbamein í blöðruhálskirtli með ákveðinni varfærni. Eiríkur bendir á að þetta séu einungis fyrstu niðurstöður en að sama skapi telur hann þær vera jákvæðar.

Greint var frá því í breskum fjölmiðlum í morgun að nýtt lyf, abiraterone, gæti aukið lífslíkur og bætt líðan karlmanna sem þjást af ágengu og illkynja krabbameini í blöðruhálskirtli. Breskir vísindamenn vonast til þess að lyfið lækni allt að 80% þeirra sem þjást af þessu afbrigði sjúkdómsins.

Eiríkur segir að vonir séu bundnar við að þetta tiltekna lyf geti gagnast í alvarlegustu tilfellunum en þá hefur krabbameinið yfirleitt náð til eitla eða beina. Í þeim tilvikum er svokallaðri hormónahvarfsmeðferð beitt en hún byggist á því að karlhormón eru fjarlægð úr blóðinu eða komið er í veg fyrir áhrif þess á krabbameinsfrumurnar. ,,Þetta er mjög áhrifrík meðferð sem dugar jafnvel árum eða áratugum saman en þrátt fyrir hana mun krabbameinið vaxa."

,,Menn hafa vonir um að þetta tiltekna lyf geti dugað betur en fyrri meðferðir og krabbameinið síður orðið ónæmt fyrir þessari meðferð," segir Eiríkur.

Á hverju ári greinast rúmlega 200 karlmenn hér á landi með krabbamein í blöðruhálskirtli og meðaltali má rekja dauðsföll 50 einstaklinga til sjúkdómsins. Í þriðjungi tilfella er krabbamein í blöðruhálskirtli ágengt og illkynja. Í öðrum tilvikum er krabbameinið staðbundið sem auðveldara er að meðhöndla.


















Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×