Innlent

Sextíu björgunarsveitamenn kallaðir til leitar á Suðurlandi

Björgunarsveitamenn á Suðurlandi voru kallaðar út í tvær leitir í nótt. Leitað var að hollenskum manni á miðjum aldri sem hafði lagt upp í göngu frá Landmannalaugum seinni partinn í gær og villst í þoku. Að sögn lögreglunnar var hann illa búinn.

Alls tóku sextíu björgunarsveitarmenn frá Suðurlandi þátt í leitinni, gangandi, á fjórhjólum og á beltabíl. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út í morgunsárið. Maðurinn fannst klukkan korter í sjö í morgun við Bláhnjúk, sunnan við Landmannalaugar. Hann var heill á húfi og vel göngufær, en kaldur. Hann var fluttur með aðstoð björgunarsveitar í skála við Hrafntinnusker og svo fluttur með björgunarsveitabíl í Landmannalaugar.

Þá var leitað að átta konum sem höfðu gengið upp Sveinstinda. Ferðin gekk hægar hjá þeim en gert hafði verið ráð fyrir. Ákveðið var að hefja leit þegar þær skiluðu sér ekki á leiðarenda á tilsettum tíma. Konurnar fundust um tvöleytið þar sem þær voru á réttri leið inn í Skælinga, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×