Innlent

Vestmannaeyingar vilja aukið forræði yfir Surtsey

Vestmannaeyingar vilja fá aukið forræði yfir Surtsey, enda sé hún óumdeilanlega hluti af Vestmannaeyjaklasanum.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur samþykkt að óska eftir framtíðarsýn frá ríkisvaldinu varðandi Surtsey og Surtseyjarstofu. Jafnframt var það ósk bæjarstjórnar að forræði Eyjamanna sjálfra yfir þessari yngstu eyju í Vestmannaeyjaklasanum verði aukið.

Surtsey er nú á heimsminjaskrá UNESCO og staðir á heimsminjaskránni draga gjarnan að aukinn fjölda ferðamanna þannig að mikilvægi viðkomandi staða eykst í þjóðhagslegu tilliti.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri, sagði í samtali við fréttastofuna að Vestmannaeyjabær vilji vinna að því með umhverfisráðuneytinu að öll umsvif og stjórnun Surtseyjar séu í Vestmannaeyjum undir foræði heimamanna og umhverfisráðuneytisins. Þetta ræddi Elliði á fundi með umhverfisráðherra í seinustu viku og var gagnvæmur skilningur á stöðunni.

Vestmannaeyjabær hefur samþykkt stefnu í safna- og menningarmálum undir nafninu "Söfn og menning í Vestmannaeyjum; heill heimur út af fyrir sig".

Þar kemur fram að Vestmannaeyjabær ætlar að stórefla allt safnastarf er snýr að sérkennum byggðarlagsins. Þannig verður þremur stoðum komið undir safnastarfið þ.e. Sagnheimar (byggðarsagan svo sem Tyrkjaránið), Sæheimar (náttúrugripasafn með lifandi dýrum og fl.) og Eldheimar (gosmynjasafn sem verður byggt inn í hlíðum Eldfells.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×