Innlent

Slæmt ferðaveður víða á landinu

Það er hálka eða hálkublettir á velflestum leiðum á Suðurlandi og hálka bæði á Hellisheiði og í Þrengslum. Gert er ráð fyrir talsverðri úrkomu í éljum svo skyggni gæti orðið mjög takmarkað.

Við Faxaflóa og Breiðafjörð er éljagangur og hálkublettir nánast á öllum leiðum.

Þá er víða nokkur hálka á Vestfjörðum og él eða skafrenningur. Raunar er óveður er á Hálfdán og Mikladal - og stórhríð á Steingrímsfjarðarheiði.

Það er éljagangur og snjóþekja um Norðurland vestanvert en vegir víða auðir eftir því sem austar dregur. Bæði á Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði er hvasst og getur verið ansi blint í éljum.

Á Austur- og Suðausturlandi eru flestar leiðir greiðfærar.

Vegna hátíðarinnar lýkur þjónustu á langleiðum á hádegi í dag, jóladag, en á styttri leiðum þar sem umferð er mikil verður þjónusta samkvæmt snjómokstursreglum.

Á morgun, annan í jólum, verður þjónusta samkvæmt almennum snjómokstursreglum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×