Innlent

Landsmót hestamanna sett á Gaddstaðaflötum

Landsmót hestamanna sem fram fer að Gaddstaðaflötum á Hellu að þessu sinni hófst í blíðskaparveðri í morgun. Um tvö þúsund manns eru mættir á svæðið.

Landsmótið hófst klukkan átta í morgun með kynbótasýningum á aðalvelli en klukkan ellefu hófst forkeppni í ungmennaflokki. Rúmlega tvö þúsund manns eru mættir á svæðið og rísa tjaldborgir víða enda veður gott. Forkeppnir og kynbótasýningar fara fram á tveimur völlum fram á fimmtudag en þá um kvöldið verður mótið formlega sett.

Yfir eitt þúsund hross verða sýnd í keppni og á kynbótabrautinni. Um 500 knapar tefla fram gæðingum sínum og er sá yngsti aðeins 8 ára en sá elsti um sjötugt. Öll úrslit fara fam á aðalvelli og nær mótið hámarki um helgina.

Mótshaldarar gera sér vonir um að um fimmtán þúsund manns mæti en á bilinu tíu til tólf þúsund manns hafa mætt á mótin undanfarin ár. Skemmtidagskrá verður fjölbreytt og stíga þjóðþekktir skemmtikraftar á svið. Auk þess er nóg um að vera fyrir börn og hafa mótshaldarar lagt mikla áherslu á að gera mótið enn fjölskylduvænna en áður. Landsmótinu lýkur svo á sunnudag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×