Innlent

Ramses hefði átt að njóta vafans

Guðjón Arnar Kristjánsson
Guðjón Arnar Kristjánsson

„Mér finnst þetta mjög ömurlegt að við skulum ekki geta tekið málið fyrir. Ég veit að við getum ekki tekið við öllum sem koma hingað og kalla sig flóttamenn og bera fyrir sig allskonar sögur sem engin fótur er fyrir þegar farið er að kanna það," sagði Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins í dag um mál Paul Ramses flóttamanns sem sendur var úr landi nýlega.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Frjálslynda flokknum. Þar segir enn fremur að Guðjón bendi á að ekki sé vafi á að maðurinn hafi verið að flýja ákveðnar aðstæður í heimalandi sínu, aðstæður sem ógni líf hans.

Aðspurður hvort Útlendingastofnun hefði átt að taka öðruvísi á málinu sagði Guðjón að það væri sín skoðun að svo væri. Þetta tilfelli hefði átt að skoða út frá mannúðarsjónarmiðum og út frá því að hér geti hreinlega verið um líf mannsins að tefla. Hann taldi að ekki væri hægt að líkja þessu máli við önnur mál flóttamanna hér á landi.

„Ég veit það ekki. Úr því að menn fóru ekki strax í að skoða málið. Hann hefði átt að fá að njóta vafans þegar hann var hér," sagði Guðjón aðspurður um hvort fara ætti til Ítalíu og sækja manninn.

Guðjón gaf ekki mikið fyrir þau rök Útlendingastofnunar að málið væri fordæmisgefandi ef það hefði verið höndlað á annan hátt en gert var.

„Nei, það tel ég ekki vera" sagði Guðjón að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×