Innlent

Vill að svar til mannréttindanefndar SÞ verði kynnt þingi

MYND/GVA

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, deildi á ríkisstjórnina í dag fyrir að vilja ekki leyfa þinginu að ræða væntanlegt svar ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Forsætisráðherra sagði hins vegar ekkert sem mælti gegn því að málið yrði rætt á þingi.

Mannréttindanefndin komst að því í fyrra að íslenska kvótakerfið bryti í bága við Mannréttindasáttmála SÞ og hefur ríkisstjórnin frest til 11. júní til þess að bregðast við því.

Guðni Ágústsson benti á að Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði lýst því yfir 7. maí að hann vonaðist til að svarið lægi fyrir áður en þing færi heim, en áætlað er að ljúka þingstörfum á fimmtudag. Sagði Guðni að óvissa skapaðist í sjávarútvegi þegar þingið færi heim ef ekki yrði brugðist við álitinu. Ríkisstjórnin væri með tvær skoðanir í málinu, Samfylkingin vildi breytingar en Sjálfstæðisflokkurinn ekki, en þetta væri mannréttindamál sem þyrfti að bregðast við.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði tímann hafa verið nýttan vel frá því að álitið hefði borist íslenskum stjórnvöldum í fyrra. Minnti hann á að álitið væri ekki bindandi að alþjóðarétti en sjávarútvegsráðherra hefði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar látið vinna vandaða lögfræðivinnu fyrir málið. Það styttist í að svarið væri tilbúið og Guðni þyrfti ekkert að efast um að erindinu yrði svarað.

Guðni sagði þá ljóst út frá orðum forsætisráðherra að ekki yrði staðið við orð sjávarútvegsráðherra frá 7. maí um að svarið lægi fyrir áður en þingið færi heim. Spurði hann hvers vegna þingið ætti ekki að fá að sjá svar stjórnvalda og benti á að stjórnarandstaðan hefði sitt um málið að segja.

Geir H. Haarde sagði hins vegar ekkert sem mælti gegn því að málið yrði rætt á þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×