Innlent

Tíu fíkniefnamál á Landsmóti

Tíu fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á Hvolfsvelli í gærkvöldi og tók tæplega þrjátíu manns fyrir of hraðan akstur við hefðbundið umferðareftirlit á Suðurlandsvegi í gærkvöld og í nótt. Tvær líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu á höfuðborgarsvæðinu.

Erilsamt hefur verið hjá Lögreglunni á Hvolfsvelli síðustu daga meðal annars vegna Landsmóts hestamanna að Gaddstaðaflötum á Hellu. Mótið hefur hins vegar farið vel fram að sögn lögreglu. 10 fíkniefnamál komu upp í gærkvöld og í nótt þegar umferð á Suðurlandsveginum við Hellu var vöktuð og voru 26 manns teknir fyrir of hraðan akstur.

Þá voru tvær líkamsárásir tilkynntar til lögreglu á höfuborgarsvæðinu í nótt. Ráðist var á mann á Laugavegi og var hann fluttur með áverka í andliti á slysadeild. Þá var einnig ráðist á konu sem stödd var á Tryggvagötu og var flutt á slysadeild. Harður árekstur bifhjóls og bifreiðar varð á Suðurgötu við Háskólabíó laust eftir klukkan ellefu í gærkvöld. Ökumaður hjólsins slasaðist töluvert og var fluttur á Slysadeild, ökumaður bifreiðarinnar var einnig fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Þá voru tveir karlmenn á tvítugsaldri handteknir fyrir að ráðast á karlmann á sama aldri við tjaldsvæðið á Akranesi í nótt. Mennirnir gistu fangageymslur í nótt og verða yfirheyrðir í dag. Sex voru teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis á Akranesi í gær. Hjá einum ökumanni fundust fimmtán grömm af meintu amfetamíni og kókaíni. Hann var yfirheyrður og sleppt að því loknu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×