Innlent

Íbúi við Hallgrímskirkju að ærast úr hávaða

Hörður Ágústsson íbúi við Frakkastíg í Reykjavík segist vera að ærast úr hávaða vegna viðgerða á Hallgrímskirkju. Á hverjum virkum degi hefst vinna klukkan 07:00 að morgni að sögn Harðar og um helgar byrja viðgerðir hálftíma síðar. Hann segist við það að gefast upp og hefur áhyggjur af ferðamönnum.

„Til samanburðar, þá byrja kirkjuklukkurnar ekki að hringja fyrr en kl. 09:00 og nú ákkúrat þegar þetta er skrifað þá heyrum við óminn af kirkjuklukkum en hann drukknar í þessum geðsjúka hávaða," segir íbúinn í bréfi sem hann sendi Vísi í morgun.

Hörður er búinn að hafa samband við lögreglu sem segir vinnutímann vera utan þess tíma sem kallast næturró.

„Okkur er skítsama um hugtök eins og næturró, löglegt eða annað á þeim nótum þegar við vöknum við svona guðsvolaðan hávaða. Við búum í samfélagi þar sem hingað til hefur ekki þurft að vísa í lagabókstaf í hverju einasta atviki fyrir sig," skrifar Hörður sem vill fá að sofa út um helgar.

Hann hefur nú biðlað til verktakans um að gefa sér svefnfrið fyrir hádegi á laugardögum og hefur áhyggjur af fleirum en bara sjálfum sér.

„Ég get ekki nema vorkennt útlendingum sem hingað eru komnir með Evrur og Svissneska Franka, ólmir í að fara í Lundaskoðun og Hvalaskoðun og kaupa sér íslenskan hamborgara," skrifar Hörður sem er greinilega ekki skemm því í bréfinu sem hann sendi verktakanum segir hann í lokin.

„Við sáum að þið eruð með sérfræðinga í hljóðvist.... eru þeir í fríi ?"








Fleiri fréttir

Sjá meira


×