Innlent

Sveitarfélög ganga hart að skuldurum

Meðal þess sem sveitarfélög senda í milliinnheimtufyrirtæki eru vangoldin gjöld fyrir skólamáltíðir.
fréttablaðið/stefán
Meðal þess sem sveitarfélög senda í milliinnheimtufyrirtæki eru vangoldin gjöld fyrir skólamáltíðir. fréttablaðið/stefán

Skuldir þúsunda einstaklinga við sveitarfélag sitt eru í innheimtu hjá innheimtufyrirtækjum, til dæmis Intrum eða Momentum. Í slíkri innheimtu bætist við kostnaður fyrir skuldarann. Hafnarfjörður er eina sveitarfélagið af þeim fimm stærstu sem skiptir ekki við slík fyrirtæki.

Ýmiss konar gjöld eru í innheimtu; fasteignagjöld, gatnagerðargjöld, leikskólagjöld, gjöld fyrir frístundaheimili og skólamáltíðir í grunnskólum, svo eitthvað sé nefnt.

Hjá Reykjavík eru 6.000 kröfur í innheimtu hjá Momentum og útistandandi skuldir nema 570 milljónum króna. Fjöldi greiðenda gæti verið minni þar sem hver og einn gæti átt fleiri en eina skuld.

Í Kópavogi eru skuldir 98 einstaklinga í innheimtu upp á 6,3 milljónir króna. Þar að auki eru 23 fyrirtæki. Aðeins er ein krafa á hvern greiðanda samkvæmt upplýsingum frá bænum.

Akureyrarbær á útistandandi 37 milljónir í ógreiddum gjöldum sem eru í innheimtu. Fjöldi mála er 774, en þær kröfur deilast á 368 einstaklinga. Stærstur hluti upphæðarinnar, um 17 milljónir, er vegna fasteignagjalda, en 6,5 milljónir vegna leik- og grunnskóla.

Í Garðabæ eru 70,2 milljónir í innheimtu hjá innheimtufyrirtækjum, í 113 kröfum á 85 einstaklinga. Í flestum tilfellum er um að ræða fasteignagjöld, en stærsta krafan er vegna gatnagerðargjalda. Tekin hefur verið sú ákvörðun að hætta að senda gatnagerðargjöld í milliinnheimtu.

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir að ástæða þess að ekki sé skipt við innheimtufyrirtæki þar á bæ sé tvíþætt. Reiknað hafi verið út að varðandi vanskil á fasteignagjöldum sé hagkvæmara að sveitar-félagið innheimti sjálft dráttarvexti.

„Svo er um að ræða alls kyns viðkvæma innheimtu, félagsíbúðir, skólamáltíðir og fleira. Þetta er mjög vandmeðfarið og við viljum stýra því hvernig meðferð hvert mál fær. Það getur þurft að taka tillit til sérstakra aðstæðna og þá má ekki vera þessi fjarlægð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×