Innlent

Kvótalausi sjómaðurinn fór í útrás með kvótagróða

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Ásmundur Jóhannsson.
Ásmundur Jóhannsson.

Ásmundur Jóhannsson, kvótalausi sjómaðurinn, hefur ekki alltaf verið kvótalaus. Árið 1990 hagnaðist hann um sextíu millljónir króna þegar hann seldi hlut sinn í útgerðarfélaginu Festi, þar með talinn kvóta.

Eftir að Ásmundur seldi hlut sinn fór hann til Amsterdam þar sem hann stofnaði verslunarfélag. Þaðan fór hann til Brasilíu þar sem hann dvaldi í hálft ár og ætlaði í útgerð. Af því varð ekki en Ásmundur fór þá til Mexíkó þar sem hann dvaldi í fimm ár og reisti gúanóverksmiðju. Hann sneri aftur til Íslands árið 1999.

Undanfarið hefur Ásmundur gert út frá Sandgerði án kvóta. Hann hefur með veiðunum viljað vekja athygli á kvótakerfinu, sem hann kallar ólög. Fyrr í dag færði Landhelgisgæslan bát Ásmunds til hafnar og innsiglaði, og á hann yfir höfði sér kæru fyrir veiðarnar.

Aðspurður segir Ásmundur sér ekki þykja það skjóta skökku við að selja kvótann fyrst og mótmæla kerfinu svo. „Ég hagnaðist ekki á sölunni á kvótanum," segir Ásmundur, sem segist einungis hafa selt á verði sem miðaðist við tryggingamat skipsins. Öðrum viðmælendum Vísis virðist þó bera saman um að meginþorri verðmætis skipsins hafi verið kvóti.

Ásmundur fagnar yfirvofandi kæru vegna veiðanna. Málið sé nú í höndum lögfræðinga, en hann vill að það fari fyrir mannréttindadómstól. „Ég vil að ráðamenn fari að haga sér eins og menn og afnemi þessa kvótavitleysu," segir Ásmundur.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×