Innlent

Með ólíkindum að minnihlutinn geri kosningu í nefndir tortryggilega

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri segir með ólíkindum að minnihlutinn í borgarstjórn reynI að gera kosningu fulltrúa í nefndiR á vegum F-listans tortryggilega.

Þetta kemur fram í bókun sem borgarstjóri lagði fram á fundi borgarráðs í dag. Þar var samþykkt að Magnús Skúlason kæmi í stað Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur, fyrrverandi aðstoðarmanns borgarstjóra, sem fulltrúi F-listans í skipulagsráði. Þá hættir Ólöf einnig sem varamaður í stjórn Faxaflóahafna.

Minnihlutinn sakaði borgarstjóra um fordæmalausa framkomu gagnvart fyrrverandi samstarfsmanni og með ómaklegri framkomu hefði borgarstjóri vakið umræðu um ákvæði sveitarstjórnarlaga um skilyrði þess að víkja kjörnu nefndarfólki til hliðar gegn vilja þeirra.

Borgarstjóri svaraði þessum orðum minnihlutans með áðurgreindum orðum og sagði enn fremur að fullkomlega málefnaleg rök væru fyrir því að kjósa nýja fulltrúa í þeim tveimur nefndum sem um ræðir.

„Í skipulagsráði eru til umfjöllunar veigamikil og stefnumótandi mál sem eru grundvöllur að málefnasamningi F-lista og Sjálfstæðisflokks. Í því ljósi er afar mikilvægt að þeir sem sitja í umboði meirihlutans njóti fullkomins pólitísks trúnaðar. Viðkomandi fulltrúi hefur ekki starfað með F-listanum að undanförnu. Nauðsynlegt samstarf og samráð milli fulltrúans og þess framboðs sem hann situr í umboði fyrir er þannig ekki fyrir hendi," segir enn fremur í bókun Ólafs.






Tengdar fréttir

Borgarstjóri hefur orðið ber að fordæmalausri framkomu

Minnihlutinn í borgarráði segir Ólaf F. Magnússon borgarstjóra hafa orðið beran af fordæmalausri framkomu gagnvart fyrrverandi samherja og aðstoðarmanni sínum fyrir þær sakir einar að bíða með yfirlýsingar í viðkvæmu skipulagsmáli þar til fagleg úrvinnsla þess hefði farið fram í skipulagsráði.

Magnús inn í skipulagsráð í stað Ólafar Guðnýjar

Borgarráð samþykkti á fundi sínum fyrr í dag að Magnús Skúlason kæmi inn í skipulagsráð borgarinnar sem fulltrúi borgarstjóra og hans flokks í stað Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur, fyrrverandi aðstoðarmanns borgarstjóra

Ólöf leitar til lögfræðinga - Segir borgarstjóra misnota vald

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir sem vikið var úr skipulagsráði Reykjavíkurborgar, vegna ummæla sem hún lét falla varðandi vinningstillögu Listaháskólans, ætlar að láta lögfræðinga skoða brottreksturinn. Hún furðar sig á því að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins skuli kyngja málinu þegjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×