Innlent

Dagsetningin 08.08.08 heillar

Áttundi, þann áttunda, tvö þúsund og átta rennur upp á morgun. Þessa eftirminnilegu dagsetningu ætla margir að nýta sér til hinna ýmsu viðburða á morgun.

Sjöundi júlí í fyrra þótti merkisdagur til hinna ýmsu viðburða, enda dagsetningin sérstaklega eftirminnileg, núll sjö núll sjö núll sjö. Dagsetningin næsta föstudag verður ekki síður merkileg, núll átta núll átta núll átta.

Verðandi brúðhjón horfa þennan dag björtum augum og eru dæmi um að prestar framkvæmi allt að sjö hjónavígslur. Prestar á höfuðborgarsvæðinu eru þétt bókaðir á föstudaginn en landsbyggðarfólk virðist ekki jafn ginnkeypt fyrir þessari dagsetningu. Það er einkum vantraust á karlpeningnum sem gerir daginn vinsælan, því dagsetningin verði að vera einföld eigi þeir að muna eftir brúðkaupsafmælinu.

En það verður fleira um að vera þennan merka dag. Kammersveitin Ísafold ætlar að halda tónleika á Kjarvalsstöðum tileinkaða tónskáldinu George Ligeti sem er þekktastur fyrir tónlist sína úr myndum Stanley Kubrick. Verða allir salir Kjarvalsstaða undirlagðir þessum flutningi.

Kvikmyndin Skrapp út eftir Sólveigu Anspach verður frumsýnd kvöldið áttunda áttunda og þá er eftir að nefna sýningu allra sýninga, Ólympíuleikana umdeildu í Peking. Átta er mikil happatala í Kína og til að undirstrika það verða leikarnir settir átta mínútur yfir átta á föstudagskvöldið, og átta sekúndum betur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×