Erlent

Bush deilir á Kínverja

MYND/AP

George Bush Bandaríkjaforseti hélt ræðu í Bangkok í nótt þar sem hann ávítti Kínverja fyrir slælega frammistöðu í mannréttindamálum. Viðbúið er að ræðan valdi nokkrum titringi á meðal ráðamanna í Peking en þangað er för Bush heitið frá Tælandi en hann mun verða viðstaddur Ólympíuleikana í borginni sem hefjast á morgun.

Í ræðunni hrósaði Bush efnahagsframförum í Kína á síðustu árum en hann sagði að Kínverjar myndu ekki ná sínu besta fram fyrr en þeir færu að virða mannréttindi borgaranna. Forsetinn sagðist hafa miklar áhyggjur af stöðu mannréttindamála í landinu og að Bandaríkin væru andsnúin því að kínversk yfirvöld hnepptu pólitíska andófsmenn og mannréttindafrömuði í fangelsi fyrir það eitt að deila annari skoðun en þeirri sem ríkjandi er í landinu.

Hann hvatti ráðamenn í Peking til þess að leyfa frjáls skoðannaskipti, frjálsa fjölmiðla og sjálfstæð verkalýðsfélaög því það væri eina leiðin fyrir ríkið til þess að ná að þróast til framtíðar. Bush er væntanlegur til Peking í dag en hann hefur verið gagnrýndur í heimalandi sínu fyrir að mæta á leikana.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×