Innlent

Borgin þarf að veita nýja umsögn um Vegas og Óðal

Borgarráð frestaði á fundi sínum í dag að fjalla um beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um nýja umsögn vegna óskar skemmtistaðanna Óðals og Vegas um undanþágu frá banni við nektarsýningum.

Í tíð hundrað daga meirihlutans í fyrra var samþykkt að leggjast gegn því að veita leyfi til nektardans á stöðunum tveimur. Var tillagan þá samþykkt með atkvæðum meirihlutans en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sem þá voru í minnihluta, ákváðu að sitja hjá.

Ný vending kom í málið nýlega þegar lögreglustjórinn endurnýjaði leyfi Goldfinger í Kópavogi til að sýna nektardans. Það gerði lögreglustjórinn eftir að dómsmálaráðuneytið hafði komist að þeirri niðurstöðu að lögreglustjóranum bæri að endurskoða fyrri umsögn sína um Goldfinger. Í henni lagðist lögreglustjórinn gegn leyfi til handa Goldfinger til að sýna nektardans.

Í ljósi hins nýja úrskurðar lögreglustjórans varðandi Goldfinger fer hann nú fram á nýja umsögn frá borginni varðandi Óðal og Vegas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×