Erlent

Beita verður öllum ráðum til þess að koma aðstoð til íbúa í Búrma

Javier Solana er hér ásamt Geir H. Haarde forsætisráðherra.
Javier Solana er hér ásamt Geir H. Haarde forsætisráðherra. MYND/Björn Þór Sigurbjörnsson

Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, segir að alþjóðasamfélagið verði að beita öllum ráðum til þess að koma aðstoð til þeirra sem eiga um sárt að binda eftir að fellibylurinn Nargis gekk yfir Búrma.

Eins og fram hefur komið hefur herforingjastjórnin í Búrma verið treg til að hleypa hjálparstarfsmönnum og birgðum inn í landið og virðist sem þolinmæði manna hjá Evrópusambandinu sé á þrotum. Á blaðamannafundi í Brussel í dag benti Solana á að stofnskrá Sameinuðu þjóðanna kvæði á um aðgerðir ef ekki væri hægt að leysa mál og aðstoða fólk í neyð. Spurður að því hvort til greina kæmi að beita valdi sagði Solana að hvað sem er kæmi til greina til þess að hjálpa þeim sem þjáðust.

Við þetta má bæta að Louis Michel, yfirmaður þróunaraðstoðar hjá ESB, hugðist heimsækja hamfarasvæðin í síðustu viku, skömmu eftir að fellibylurinn gekk yfir, en hann hefur enn ekki fengið vegabréfsáritun til þess að komast inn í Búrma.

Sameinuðu þjóðirnar telja að um hundrað þúsund manns séu látnir eða saknað eftir yfirreið fellibyljarins og þá þarf vel aðra milljón á neyðaraðstoð að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×