Erlent

Kínverjar vilja funda með Dalai Lama

Dalai Lama er hér ásamt Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Dalai Lama er hér ásamt Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

 

Fulltrúar kínverskra stjórnvalda munu á næstu dögum funda með fulltrúa Dalais Lama, andlegs leiðtoga Tíbeta, í kjölfar átaka í héraðinu í síðasta mánuði. Frá þessu greindi ríkissjónvarp Kína í dag.

Þarna er á ferðinni allnokkur stefnubreyting af hálfu Kínverja sem hafa sakað leiðtogann um að hvetja til óeirðanna sem talið er að hafi kostað nokkra tugi manna lífið hið minnsta. Því hefur Dalai Lama staðfastlega neitað.

Kínverska ríkisstöðin Xinhua hefur eftir ónafngreindum embættismanni að stefnubreytinguna megi rekja til ítrekaðra beiðna af hálfu Dalai Lama um viðræður. Hins vegar yrði leiðtoginn að vinna að því að binda enda á aðgerðir sem hefðu það að markmiði að kljúfa Kína.

Kínverjar hafa sætt mikilli gagnrýni á alþjóðavettvangi fyrir framgöngu sína í Tíbet. Hafa mótmæli sett svip sinn á för ólympíukyndilsins um heiminn en Kínverjar eru gestgjafar Ólympíuleikanna í ágúst næstkomandi

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×