Erlent

Að minnsta fjórir látnir eftir ferjuslys á Filippseyjum

Að minnsta kosti fjórir eru látnir eftir að ferja með yfir 700 farþegum sökk í óveðri í kjölfar fellbyljarins Fengshen á Filippseyjum. Þetta er haft eftir aðilum sem eru á staðnum.

„Skipið sökk um þrjá kílómetra frá strandlengjunni. Við höfum aðeins fundið fjóra látna og enga sem lifðu slysið af," sagði Elandro Madrona þingmaður í útvarpinu í morgun.

„Ég geri ráð fyrir að fólk hafi farið í gúmmíbáta eftir að skipstjórinn yfirgaf skipið. Það sést aðeins í stafnið á skipinu núna sem er næstum allt neðansjávar."

Bæjarstjóri á svæðinu staðfesti einnig að skipið væri sokkið og farþegar í björgunarvestum hefðu sést í sjónum.

Fengshen fellibylurinn fór yfir Filippseyjar fyrr í morgun og er búist við honum til Taívans á næstu dögum.

Rauði krossinn hefur gefið það út að tala látinna vegna Fengshsen sé um 150 en inni í þeirri tölu eru ekki þeir farþegar ferjunnar sem talið er að hafi látist. Ástandið í landinu er slæmt og eru mikil flóð og rigning sem fylgdu í kjölfar fellibylsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×