Erlent

Nærri fjörutíu fundnir á lífi eftir ferjuslys við Fillipseyjar

Ólgusjór á staðnum þar sem ferjunni hvolfdi og það hamlar björgunarstarfi.
Ólgusjór á staðnum þar sem ferjunni hvolfdi og það hamlar björgunarstarfi. MYND/AP

Þrjátíu og átta farþegar hafa fundist á lífi eftir ferjuslys við Filippseyjar um helgina. Rúmlega átta hundruð manna er saknað.

Aðframkomnir skipbrotsmenn sváfu á dýnum í fjöldahjálparstöð í Quezon city, sumir eftir að hafa verið í sjónum í björgunarvesti í meira en sólarhring.

Þeir segjast hafa haldið hópinn og hjálpast að. Þannig hafi þeir komist lífs af. Ferjan Princess of Stars er á hvolfi og ekki er vitað hvort nokkur er á lífi inni í skipskrokknum. Björgunarmenn hafa bankað í skipið en ekki fengið neitt svar innan úr því.

Nú er verið að skoða hvort hægt sé að bora gat á byrðinginn til þess að kanna hvort þar sé einhver á lífi. Ferjan var á siglingu þegar fellibylurinn Fengshen brast á, strandaði við Sibuyan-eyju og hvolfdi. Enn er ólgusjór á svæðinu sem torveldar björgunarstarf.

Ættingjar þeirra sem voru um borð hafa harðlega gagnrýnt ákvörðun um að senda ferjuna af stað þó að ljóst hefði verið að fellibylurinn væri að skella á. Samkvæmt farþega- og áhafnarskráningu voru 747 manns um borð en í raun er talið að þeir hafi verið á níunda hundraðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×