Innlent

Söguleg sátt um skjaldborg um orkulindir

Söguleg sátt hefur náðst um að slá skjaldborg um orkulindir þjóðarinnar, sagði formaður iðnaðarnefndar á Alþingi í morgun þegar ljóst var að þingheimur myndi allur styðja meginefni frumvarps iðnaðarráðherra um að tryggja að mikilverðustu vatns- og jarðhitaréttindi verði í eigu ríkis og sveitarfélaga.

Deilur í fyrra í kjölfar sölu ríkisins á eignarhlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja urðu til þess að nýr iðnaðarráðherra boðaði lagafrumvarp um orkumál en það er nú í lokameðferð Alþingis.

Vinstri grænir leggja til breytingartillögur þess efnis að ekki megi einkavæða smærri virkjanir eins og Mjólkárvirkjun og Andakíl en frumvarpið miðast aðeins við virkjanir sem eru tíu megavött eða stærri. Þá vilja þeir festa í lög að Landsnet, sem annast dreifikerfið, verði í eigu opinberra aðila.

Engu að síður lítur formaður iðnaðarnefndar, Katrín Júlíusdóttir, svo á að víðtæk samstaða sé um málið. Hún sagði við atkvæðagreiðslu í dag eftir aðra umræðu að segja mætti að söguleg sátt hefði náðst um að slá skjaldborg um orkulindir þjóðarinnar.

Frumvarp iðnaðarráðherra gerir jafnframt ráð fyrir að rafmagns- og hitaveitur verði ætíð í meirihlutaeigu opinberra aðila. Össur Skarphéðinsson sagði við umræðurnar að svo virtist sem allur þingheimur stæði að baki frumvarpinu og þeirri hugmynd að orkulindir landsins sem væru í samfélagslegri eigu yrðu það áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×