Lífið

Íslenskt kreppuspil vekur heimsathygli

Óvissa, útrás, mótmæli og kaupæði eru allt þættir sem koma fyrir í nýju Kreppuspili þar sem yfirlýsingar Seðlabankastjóra geta haft óvænt áhrif á gang leiksins. Spilið hefur þegar vakið heimsathygli.

Hönnun spilsins er nú á lokastigi en stefnt er að því að setja það á markað fyrir jólin.

Valur Gunnarsson, aðalhönnuður spilsins, segir að hugmyndin að spilinu hafi kviknað um síðustu mánaðamót - eftir að kreppan skall á af fullum þunga.

„Ég talaði við góða félaga mína hjá Gogocig sem er leikjafyrirtæki og þeim fannst þessi hugmynd nógu biluð til þess að þeir vildu ganga í þetta með mér," segir Valur.

Spilið hefur nú þegar vakið athygli út fyrir landsteinana og hefur Financial Times meðal annars fjallað um það.

En hvernig virkar þetta spil, er þetta öfugt Matador, er maður að fara inn í kreppu í stað þess að græða pening? „Þetta er svona Matador með aðeins meiri sveiflum," segir Valur. „Þú þarft að vinna þig í gegnum kreppuna, og getur lent á viðkomandi reitum, kreppu, óvissu eða góðæri og þar dregur þú spjöld sem hafa áhrif á þinn gang í spilunu."

Þannig getur óvænt ræða seðlabankastjóra haft áhrif á gang leiksins og þýtt að leikmaður þurfi að fara aftur um nokkra reiti.

Fjölmargir hafa komið að þróun spilsins og gefst almenningi einnig kostur á að koma með hugmyndir í gegnum netsíðuna kreppuspil.is.

Og hvernig vinnur maður spilið? „Þú þarft að komast á blaðamannfund og segja af þér," segir Valur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.