Innlent

Samkeppniseftirlitið hindrar að kaupsamningurinn verði efndur

Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.
Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Mynd/ Rósa

Hafnarfjörður stefndi í gær Orkuveitu Reykjavíkur til að greiða 7,7 milljarða króna auk dráttarvaxta fyrir 14,6 prósenta hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja. Hafnarfjörður gerir þá kröfu til vara að OR verði dæmt til að greiða 1,1 milljarð króna auk dráttarvaxta í skaðabætur vegna vanefnda Orkuveitunnar á kaupsamningnum. Eftir því sem fram kemur í 24 stundum í dag liggur stefna fyrir hjá dómstjóra.

Fyrir fáeinum dögum síðan úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að Orkuveita Reykjavíkur mætti að hámarki eiga 3% hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Orkuveitan hefur þegar eignast tæp 17 prósent og til stóð að fyrirtækið myndi bæta við sig 15% hlut Hafnfirðinga.

„Við erum þeirrar skoðunar að þar sem að Samkeppniseftirlitið hefur úrskurðað að Orkuveitan megi ekki eiga nema 3% hlut í Hitaveitu Suðurnesja, að þá sé ekki rétt að efna þennan kaupsamning við Hafnarfjarðarbæ," segir Kjartan Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Þessu sjónarmiði eru bæjaryfirvöld í Hafnarfirði ekki sammála. Kjartan segir eðlilegt að Hafnfirðingar leiti til dómstóla ef þeir telji á sér brotið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×