Innlent

Farið yfir mál Ramses ef kæra berst

MYND/Anton

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að farið verði yfir máls Pauls Ramses Keníamanns ef kæra berist ráðuneytinu. Í sama streng tekur Geir H. Haarde forsætisráðherra sem segir málið í ferli og menn muni sjá hvort málið verði kært til dómsmálaráðuneytisins.

Bæði Björn og Geir voru spurðir út í mál flóttamannsins eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Björn Bjarnason sagðist ekki hafa vitað um mál Ramses áður en ákvörðun var tekin um að vísa honum til Ítalíu. Hann hefði ekki komið að ákvörðuninni. Aðspurður hvort hann hefði gert eitthvað hefði hann vitað af málinu sagði Björn að það þýddi ekki að ræða mál í viðtengingarhætti.

Spurður um þá áskorun Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, að dómsmálaráðherra endurskoði ákvörðun Útlendingastofnunar í málinu sagði Björn málið ekki komið til dómsmálaráðuneytisins en farið yrði vel yfir það ef það kæmi þangað. Fram kom á Vísi í gær að lögmaður Ramses, Katrín Theódórsdóttir, hyggist kæra þá ákvörðun stjórnvalda að vísa Ramses úr landi á þeim forsendum að lög hafi verið brotin.

Björn var spurður að því hvort hann teldi eðlilegt að einn maður sinnti þessum málaflokki hjá Útlendingastofnun og hvort ekki þyrfti að fjölga starfsmönnum þar og samsinnti hann því. Það væri eðlilegt í ljósi fjölgunar útlendinga í landinu. Þá benti Björn á að unnið væri að hertari reglum um útlendinga innan Evrópusambandsins.



MYND/GVA

Geir H. Haarde forsætisráðherra var spurður út í gagnrýni Samfylkingarmanna í málinu. Hann sagðist ekki líta svo á að gagnrýnin kæmi frá Samfylkingunni sem flokki heldur frá einstökum þingmönnum.

Geir sagði málið í ferli og menn yrðu að sjá hvort það yrði kært. Spurður hvort það hefði verið rétt ákvörðun að vísa Ramses úr landi sagði Geir að það væri ekki hans að svara þeirri spurningu. Ef lögfræðingur Ramses kærði málið til dómsmálaráðuneytisins fengi það rétta og eðlilega málsmeðferð sem væri svo kæranleg til dómstóla. Þá taldi Geir að Útlendingastofnun hefði farið að lögum og reglum í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×