Erlent

Háttsettir menn innan hryðjuverkasamtaka dæmdir í Indónesíu

MYND/AP

Dómstóll í Indónesíu dæmdi í dag tvo háttsetta menn innan herskáu íslömsku samtakanna Jemaah Islamiah í 15 ára fangelsi fyrir brot á hryðjuverkalöggjöf landsins.

Mennirnir tveir, Abu Dujana og Zarkasih, voru báðir sakfelldir fyrir að aðstoða hryðjuverkamenn og hafa í vörslu sinni bæði vopn og skotfæri. Báðir íhuga að áfrýja dómunum.

Samtökin Jemaah Islamiah eru talin hafa staðið á bak við fjölda hryðjuverkaárása í Suðaustur-Asíu, þar á meðal mannskæða árás á skemmistað á Balí árið 2002. Abu Dujana er sagður hafa tengsl við al-Qaida.

Saksóknari hafði farið fram á lífstíðarfangelsi yfir báðum mönnunum en dómari í málinu virti það þeim til málsbóta að þeir hefðu unnið með stjórnvöldum og lýst yfir andstöðu við ofbeldi opinberlega eftir að þeir  voru handteknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×