Innlent

Forsætisráðuneytið óþarflega veikt

Nanna Hlín skrifar
Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason

Árna Páli Árnasyni þingmanni Samfylkingar líst vel á að forsætisráðherra hafi ráðið sér ráðgjafa í efnahagsmálum. Árni telur að þannig megi styrkja almenna efnahagsráðgjöf hjá forsætisráðuneytinu. Geir Haarde forsætisráðherra réð á föstudaginn Tryggva Þór Herbertsson sem ráðgafa í efnahagsmálum til 6 mánaða.

„Forsætisráðuneytið er óþarflega veikt og fámennt ráðuneyti, það mætti vera stærra. Ég tel ekki æskilegt að hafa þannig umgjörð í efnahagsmálum að þörf sé á að ráða efnahagsráðgjafa þegar allt er komið í óefni," segir Árni. „Æsklilegra er að hafa efnahagsráðgjöf í góðærinu líka."

,,Miðað við þann dans sem hefur verið hér undanfarin ár væri gott að hafa óháða stofnun líkt og Þjóðhagsstofnun var sem væri sjálfstæð upplýsingaveita og ráðgjafaaðili um efnahagsmál," segir Árni.

Aðspurður sagðist hann ekki deila þeim áhyggjum sem Valgerður Sverrisdóttir hafði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær um skoðun Tryggva á ESB-málum og tengsl við Sjálfstæðisflokkinn.

„Tryggvi er maður með mikla reynslu og forsætisráðherra velur sér þann sem hann vill fá til ráðgjafar," segir Árni en hann telur að Tryggvi þurfi að nálgast aðild af Evrópusambandinu á faglegum forsendum eins og aðrir. Árni telur best að dæma hinn nýráðna ráðgjafa í efnahagsmálum af verkum hans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×