Innlent

FÍS lýsir yfir áhyggjum af efnahagsástandi

Félag íslenskra stórkaupmanna birtir í dag heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem félagið lýsir yfir verulegum áhyggjum af efnahagsástandinu í landinu. Um hundrað og sjötíu fyrirtæki eru í Félagi íslenskra stórkaupmanna en þeirra á meðal eru heildverslanir, lyfjafyrirtæki og útflutningsfyrirtæki.

Í heilsíðuauglýsingunni sem félagið birtir í dag er opið bréf til Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra. Þar lýsir félagið yfir þungum áhyggjum af þróun gengis íslensku krónunnar þar sem sveiflur gengisins séu mældar í tugum prósenta. Sveiflurnar sýni að íslenska krónan og íslenskt peningakerfi fáist ekki staðist til lengdar og ekki megi missa tíma til að koma á stöðugleika í gengismálum þjóðarinnar en félagið telur að þörf sé á að peningastefnu þjóðarinnar verði breytt.

FÍS telur að ríkisstjórnin eigi að beita sér fyrir því að hafnar verði aðildarviðræður við Evrópusambandið og að eina raunhæfa leiðin virðist vera að taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi.

Að lokum skorar stjórn félagsins á ríkisstjórnina að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir enn alvarlegri samdrátt en þegar er orðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×