Innlent

Menn sem réðust á leigubílstjóra í Garðabæ handteknir

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Lögregla hefur haft hendur í hári tveggja ungra manna sem réðust á leigubílstjóra í Garðabæ í fyrrinótt og ógnuðu honum meðal annars með hnífi. Í verslun 10 11 í miðbæ Reykjavíkur skallaði maður lögreglumann með þeim afleiðingum að hann marðist á kinn og var fluttur á slysadeild.

Undir morgun var tilkynnt um mann með stungusár á hálsi utan við skemmtistað í miðbænum. Lögregla fór á vettvang og handtók skömmu síðar mann sem reyndist hafa blóðugan hníf í fórum sínum.

Lögregla veitti aksturslagi bifreiðar á Reykjavegi athygli í nótt og þegar ökumanni var gefið stöðvunarmerki hlupu fjórir unglingar út úr bifreiðinni. Tveir þeirra voru handteknir, grunaðir um að hafa ekið bifreiðinni ölvaðir. Þá tilkynntu vegfarendur um ölvunarakstur við Fiskislóð og bentu fjögur vitni á mann sem sagður var hafa ekið bifreið sem hann var farinn út úr þegar lögregla kom á vettvang.

Lögreglan á Selfossi hafði afskipti af þremur ökumönnum sem grunaðir eru um ölvun við akstur. Einn þeirra var að auki tekinn fyrir of hraðan akstur en hann ók á 114 km hraða á Suðurlandsvegi við Hveragerði. Annar ók út af veginum þegar hann hugðist beygja af Biskupstungnabraut inn á Suðurlandsveg. Þriðji ökumaðurinn var stöðvaður á Eyrarbakkavegi og reyndist ölvaður. Einum ökumanni til var gert að hætta akstri en öndunarsýni gaf til kynna ölvun sem þó var undir sviptingarmörkum.

Í Borgarnesi tók lögregla tvo ökumenn sem grunaðir eru um lyfjaakstur auk eins sem ók of hratt.

Á Akureyri voru tveir ökumenn teknir fyrir meinta ölvun við akstur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×