Innlent

Skópörum raðað umhverfis Dómkirkjuna

Í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá því að skipt var yfir í hægri umferð er nú haldin sérstök umferðaröryggisvika á vegum Umferðarráðs. Klukkan eitt í dag munu nemendur Listaháskóla Íslands hefjast handa við að raða upp hundruðum skópara fyrir framan og til hliðar við Dómkirkjuna sem ætlað er að tákna þá sem látist hafa hér á landi í umferðarslysum á þessum tíma. Einar Magnús Einarsson, upplýsingafulltrúi hvetur almenning til að koma niður á Austurvöll í góða veðrinu í dag og taka þátt í samverustundinnni.

„Fjöldi skóparanna verður nákvæmlega sá sami og sem nemur fjölda þeirra einstaklinga sem látið hafa lífið í umferðinni á undanförnum 40 árum eða frá H-deginum svonefnda 26. maí 1968," segir Einar.

„Þetta verkefni nemenda Listaháskólans er hugsað sem táknmynd þeirra fórna sem íslenska þjóðin hefur fært á vegum landsins. Fórna sem í flestum tilfellum hefði mátt koma í veg fyrir," segir ennfremur.

Á meðan á þessu stendur verður kyrrðarstund í Dómkirkjunni og hefst hún klukkan 12:10. Eins og áður sagði hefjast nemendurnir handa klukkan eitt og munu skópörin standa umhverfis kirkjuna fram til klukkan fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×