Innlent

Mistök að greina ekki strax frá kostnaði við einkaþotuflug

MYND/Vilhelm
Geir H. Haarde forsætisráðherra viðurkenndi á Alþingi í dag að það hefðu verið ákveðin mistök í upphafi að greina ekki frá kostnaði við flug með einkaþotu á leiðtogafund NATO í upphafi mánaðar. Þá sagði hann að flugferðin hefði verið kolefnisjöfnuð líkt og aðrar ferðir ráðherra.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri - grænna, spurði ráðherra ítarlega út í ferðina, meðal annars um kostnað við ferðina, hvers vegna upplýsingum um kostnað hefði verið haldið leyndum í byrjun og hvort það væri gott fordæmi í umhverfislegu tilliti að nýta einkaþotu.

Álfheiður sagði Vísi hafa greint frá því 1. apríl að forsætisráðherra og utanríkisráðherra færu á fund NATO með einkaþotu og margir hefðu talið að um aprílgabb væri að ræða. Það hafi hins vegar ekki raunin en hins vegar hefði aðstoðarmaður forsætisráðherra sagt að góður díll hefði náðst og fjarvera ráðherra hefði verið stytt með því að nýta einkaþotu. Þar á eftir hefðu komið fréttir um að kostnaður yrði ekki gefinn upp og hún hefði lagt fram umrædda fyrirspurn þegar hann hefði ekki legið fyrir.

Einkaþotuflug kolefnisjafnað

Geir H. Haarde kom í pontu og las meðal annars upp úr fréttatilkynningu sem forsætisráðuneytið sendi frá sér 8. apríl um kostnað við ferðina. Einkaþotan hefði kostað 4,2 milljónir og ríkið hefði fengið þotuna á afsláttarkjörum. Gert hefði verið heiðursmannasamkomulag við flugrekandann að gefa ekki upp verðið en síðar hefði komið fram að ríkið gæti ekki fallist á þá skilmála og skildi flugrekandinn það. Þessi farkostur hefði verið valinn til þess að spara tíma og fyrirhöfn og kostnaðaraukinn miðað við almennt flug hefði verið það lítill að það hefði verið talið réttlætanlegt. Kostnaðaraukinn hefði verið 200 þúsund krónur.

Þá sagði forsætisráðherra að hann hefði talið það skynsamlega ráðstöfun að nýta einkaþotuna en um algjöra undantekningu væri að ræða. Viðurkenndi hann enn fremur að það hefðu verið ákveðin mistök í upphafi að greina ekki frá kostnaði við ferðina. Um umhverfisþáttinn sagði ráðherra að allar ferði ráðamanna væru kolefnisjafnaðar í tengslum við svokallað Kolviðarverkefni.

Blöskraði dómgreindarleysi ráðherra

Þingmenn vinstri - grænna gagnrýndu ráðherra og sagði Jón Bjarnason að honum og almenningi hefði blöskrað tíðar ferðir ráðherra til útlanda. Þá blöskraði honum einnig dómgreindarleysi ráðherra að koma í fjölmiðla og segja að kostnaðurinn við flugið yrði ekki gefinn upp en slíkt væri brot á lögum.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sagði svör Geirs afar skýr en sakaði Jón um að slá pólitískar keilur með því að segja að honum og þjóðinni blöskraði ferðir ráðherra. Sumir ráðherrar þyrftu að ferðast mikið starfs síns vegna, þar á meðal forsætisráðherra og utanríkisrápherra. Benti hann á að sama gilti um þingmenn sem tækju að sér trúnaðarstörf fyrir þingið á erlendum vettvangi. Til að mynda væru bæði formaður og þingflokksformaður Vinstri - grænna utan landsteina nú vegna opinberra erindagjörða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×