Innlent

Skipulagsstofnun leggst gegn Bitruvirkjun

Frá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði Birturvirkjunar.
Frá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði Birturvirkjunar. MYND/Kjartan Pétur Sigurðsson
Skipulagsstofnun leggst gegn því að Bitruvirkjun á Hellisheiði verði reist vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Þá setur stofnunin skilyrði fyrir Hverahlíðarvirkjun.

Í áliti Skipulagsstofnunar, sem birt er á heimasíðu stofnunarinnar, segir að um sé að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og búi svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni.

„Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis. Skipulagsstofnun telur ljóst að upplifun ferðamanna innan áhrifasvæðis Bitruvirkjunar, sem er 135 megavatta virkjun, myndi gerbreytast þegar horft er til umfangs fyrirhugaðra framkvæmda og þeirra ásýndarbreytinga sem þær hefðu í för með sér. Stofnunin telur að í ljósi þess yrði ferðaþjónusta og útivist eins og hún er stunduð í dag samkvæmt framlögðum gögnum ekki lengur möguleg innan áhrifasvæðis virkjunarinnar," segir einnig í áliti Skipulagsstofnunar.

Þar segir enn fremur að ráða megi bæði af umfjöllun í matsskýrslu Orkuveitu Reykjavíkur sem og í umsögnum og athugasemdum að um verði að ræða mikil neikvæð, óafturkræf og varanleg áhrif á ferðaþjónustu og almenna útivist vegna breyttrar ásýndar svæðisins og verulegs ónæðis af völdum hávaða bæði á framkvæmda- og rekstartíma. „Stofnunin telur að ekki sé gerlegt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á framangreinda umhverfisþætti með mótvægisaðgerðum þannig að hún teljist ásættanleg," segir í álitinu.

Þá segir Skipulagsstofnun að þegar litið sé til samlegðaráhrifa Bitruvirkjunar með núverandi virkjunum, háspennulínum og fyrirhugaðri virkjun við Hverahlíð á Hengilssvæðið í heild sinni nái þessi áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu til enn umfangsmeira svæðis og áhrifin verði að sama skapi umtalsvert meiri og neikvæðari.

Skipulagsstofnun telur einnig ljóst að með auknu raski á Hengilssvæðinu fari verndargildi lítt snortinna svæða þar vaxandi. Komi til aukinnar virkni á svæðinu geti það leitt til neikvæðra áhrifa á jarðmyndanir, örverulíf hvera, gróður og smádýralíf.

Setur þrjú skilyrði fyrir Hverahlíðarvirkjun

Þá segir stofnunin um 90 megavatta virkjun í Hverahlíð að hún komi til með að hafa talverð neikvæð sjónræn áhrif sem muni breyta ásýnd svæðis við Suðurlandsveg og hafa í för með sér talsvert rask á mosavaxinni hraunbreiðu. „Svæðið er hins vegar að mörgu leyti einsleitt m.t.t. landslagsásýndar og nálægð við fjölfarinn þjóðveg og nágrenni áhrifasvæðis Hellisheiðarvirkjunar gerir það m.a. að verkum að upplifun svæðisins sem lítt snortins kyrrláts svæðis er ekki fyrir hendi," segir í niðurstöðum Skipulagsstofnunar.

Skipulagsstofnun segir enn fremur að mikil óvissa sé um áhrif á jarðhitaauðlindina, áhrif á loftgæði ráðist alfarið af virkni hreinsibúnaðar fyrir brennisteinsvetni sem fyrirhugað er að koma upp og áhrif á grunnvatn ráðist af því að skiljuvatni verði veitt um fóðraðar niðurrennslisholur niður fyrir grunnvatnsborð.

Því setur Skipulagsstofnun þau skilyrði fyrir framkvæmdinni að áður en komi til leyfisveitinga vegna virkjanaframkvæmda þurfi að bora 5-10 rannsóknarholur við Hverahlíð svo hægt sé að segja frekar til um áhrif jarðhitavinnslu á náttúruauðlindina. Orkuveitan þarf að bera niðurstöðurnar undir Orkustofnun sem eftirlitsaðila og umsagnaraðila vegna útgáfu nýtingar- og virkjanaleyfis.

Þá þurfi Orkuveitan að tryggja að niðurrennslisholur verði tilbúnar áður en virkjun verður gangsett. Að lokum að tryggja verði viðeigandi búnað sem fargar brennisteinsvetni í útblæstri virkjunarinnar áður en virkjunin verður gangsett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×