Enski boltinn

Torres þakkar Benitez árangurinn á árinu

NordcPhotos/GettyImages

Spænski framherjinn Fernando Torres þakkar þeim Rafa Benitez og Steven Gerrard að hluta fyrir þann árangur sem hann hefur náð á knattspyrnuvellinum síðustu misseri.

Torres sló í gegn hjá Liverpool á síðustu leiktíð og fór svo fyrir liði Spánverja sem urðu Evrópumeistarar á dögunum.

Hann segir árangurinn ekki síst að þakka knattspyrnustjóra sínum Rafa Benitez, sem hvetji sig til dáða á hverri einustu æfingu.

"Benitez er alltaf ofan í manni á hverri einustu æfingu og maður þarf að hafa slíka hvatningu til að halda áfram að bæta sig. Ég vil ekki leggja árar í bát þó vel gangi og ég held að þegar upp verður staðið eigi ég eftir að þakka mönnum eins og Benitez það að hafa ögrað mér til að gera betur," sagði Torres í blaðaviðtali.

Hann minntist líka á þátt Steven Gerrard, fyrirliða Liverpool, sem hann segir fyrirmyndar fyrirliða og persónu utan vallar sem innan.

"Steven er alltaf undir gríðarlegri pressu til að standa sig og hleypa lífi í liðið. Það er ótrúlegt að sjá hvernig hann stendur undir þessu og ég væri til í að verða svona fyrirliði og leiðtogi einn daginn sjálfur," sagði Torres.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×