Innlent

Dregur úr styrk Ikes

Nokkuð hefur dregið úr styrk fellibyljarins Ikes þegar hann er um það bil að ganga á land á Kúbu. Hann mælist nú þriðja stigs fellibylur en er enn flokkaður sem meiri háttar fellibylur sem getur ógnað byggð á suðurströnd Bandaríkjanna.

Yfirvöld í Flórída og Louisiana taka því enga áhættu og búa sig undir þriðja fellibylinn á innan við mánuði. Íbúar í Louisiana eru enn að jafna sig eftir yfirreið fellibyljarins Gústafs í síðustu viku og eru enn um 370 þúsund heimili án rafmagns. Þá hefur George Bush Bandaríkjaforseti lýst yfir neyðarástandi í Flórída og þannig greitt fyrir aðstoð alríkisstjórnarinnar verði mikið tjón af völdum Ikes í ríkinu.

Búist er við að Ike gangi á land á Flórída á morgun en hann hefur þegar valdið miklu tjóni á eyjum í Karíbahafinu. Þannig fór hann yfir Turks- og Caicos-eyjar sem fjögurra stiga bylur í nótt og segja yfirvöld að um 80 prósent húsa hafi skemmst. Bíða menn nú eftir því hvernig Kúbverjum reiðir af við yfirreið Ikes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×