Innlent

Tjaldvagnar seljast vel í kreppunni

Nanna Hlín skrifar
Björgvin Barðdal hjá Seglagerðinni Ægi.
Björgvin Barðdal hjá Seglagerðinni Ægi.

Tjaldvagnar og fellihýsi seljast vel þrátt fyrir þá efnahagslægð sem verið hefur hér á landi. Bæði Arnar Barðdal hjá Víkurverkum og Björgvin Barðdal hjá Seglagerðinni Ægi segja söluna betri en von var á. Salan er þó ekki jafnmikil og síðasta sumar en þá varð sprenging í sölu tjaldvagna og fellihýsa.

„Það gengur ótrúlega vel miðað við ástandið í þjóðfélaginu, það kom okkur svolítið á óvart. Fólk er líklega meira heima núna og svo þegar líður á sumarið þá kemur þessi löngun að fara eitthvað og þá er gott að eiga eitthvað eins og fellihýsi," segir Arnar hjá Víkurverkum.

Að sögn Arnars er þó 30 prósent minni sala en síðasta sumar en hann nefnir að það hafi verið óvenjulega gott sumar. Víkurverk selur einnig notaða vagna en Arnar segir þá vera vinsælli nú en áður.

Salan gengur þokkalega hjá Seglagerðinni Ægi að sögn Björgvins. „Það er aðallega salan á hjólhýsum sem hefur minnkað. Tjaldvagnar og fellihýsi seljast svipað vel og í fyrra." Björgvin nefnir að salan sé til dæmis betri í ár en 2006. Síðasta ár hafi hins vegar skorið sig úr varðandi sölu.

„Salan fór hægt á stað í ár en hún hefur oftast verið sem best frá mars til maí en þá virðist fólk hafa verið að halda að sér höndum. Verðið hefur hins vegar verið svo gott í sumar. Ef ég ætti að ráðleggja sjálfum mér þá myndi ég segja mér að kaupa núna," segir Björgvin.






































Fleiri fréttir

Sjá meira


×