Innlent

Stjórnarflokkar deila áfram um löggæslumál

MYND/GVA

Það hefur alls ekki staðið til að leggja niður embætti Ríkislögreglustjóra og þess sér hvorki merki í stefnu stjórnarflokkanna né ríkisstjórnarinnar. Þetta sagði Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um störf þingsins í dag. Þingmenn stjórnarflokkanna deildu um málið á þingi í dag.

Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, innti Arnbjörgu eftir áliti þingflokks Sjálfstæðisflokksins á þeim hugmyndum sem Lúðvik Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, viðraði í síðustu viku. Þar lýsti hann því yfir að hann vildi skoða að leggja niður embætti Ríkislögreglustjóra í núverandi mynd. Sagðist Siv ekki sammála Lúðvík því það þyrfti embætti Ríkislögreglustjóra í ljósi breyttra aðstæðna í heiminum, þar á meðal vegna mikilla ferða fólks yfir landamæri og alþjóðlegrar glæpastarfsemi.

Spurði Siv hvorf sjálfstæðismenn hygðust greiða fyrir stefnu Samfylkingarinnar og leggja niður embættið eða hvort sjálfstæðismenn litu á orð Lúðvíks sem hefnd fyrir þann þrýsting sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefði sett á embætti lögreglunnar á Suðurnesjum.

Arnbjörg sagðist ekki ætla leggja mat á síðustu spurninguna en að það hefði aldrei staðið til að leggja niður embætti Ríkislögreglustjóra. Ástæða væri fremur til að styrkja embættið. Það yrði að hafa ákveðna þætti sem ekki væri hægt að dreifa á önnur embætti, en þar væri á ferðinni ýmis sérfræðiþekking. Það hefði hvergi komið fram að það væri stefna stjórnarflokkanna að leggja niður embættið og heldur ekki stefna ríkisstjórnarinnar. Taldi Arnbjörg að Lúðvík hefði verið að viðra sína persónulegu skoðun í málinu og hann myndi örugglega skýra hana betur.

Sérsveitarmenn sinna almennum löggæslustörfum
Birgir Ármannsson.MYND/GVA

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir með Arnbjörgu um að ekki stæði til að leggja niður embætti Ríkislögreglustjóra og sagði að menn yrðu að skoða málið vel. Spurði hann hvort menn teldu að efnahagsbrotadeild hefði þanist of mikið út, en hún hefði næg verkefni, og hvort menn væru á móti greiningardeildinni eða almannavarnadeildinni og teldu að spara ætti þar. Þá sagði hann vissulega hafa fjölgað í sérsveitinni en fram hefði komið að sérsveitarmenn sinntu einnig almennum löggæslustörfum.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, kom í pontu og sagðist deila skoðun með Lúðvík. Hann teldi að hægt væri að auka samlegðaráhrif með því að flytja stóra verkþætti til stóru lögregluembættanna á suðvesturhorninu, á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Hins vegar ætti stefnumótun og samræming að vera í höndum Ríkislögreglustjóra.

Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn renna ekki saman
Lúðvík Bergvinsson.MYND/GVA

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem hann héldi því fram að hann teldi þróun á embætti Ríkislögreglustjóra ekki á þann veg sem hann vildi sjá. Umræða um löggæslumál þyrfti að fara fram á breiðum grundvelli og fram hefði komið að fólk vildi sjá meiri löggæslu í nærsamfélaginu.

Hann benti á að talað hefði verið um öflugt eftirlit með útlendingum og glæpastarfsemi í umræðunni á þingi en það eftirlit færi fyrst og fremst fram hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Hins vegar hefðu komið fram hugmyndir sem settu það starf í uppnám og vísaði Lúðvík þar til hugmynda dómsmálaráðherra um að stía í sundur lögreglu og tollgæslu á Suðurnesjum. Það væri aldrei gott að byggja upp tvær höfuðstöðvar á 500 metra radíus og átti þar við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og Ríkislögreglustjóra.

Sagði Lúðvík að það mætti ekki gleyma því að þótt Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn væru í stjórnarsamstarfi hefðu flokkarnir ekki runnið saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×