Innlent

Eiríkur hlýtur þýðingarverðlaunin

MYND/Smári Karlsson

Eiríkur Örn Norðdahl hlýtur Íslensku þýðingarverðlaunin í ár fyrir bandarísku skáldsöguna Móðurlausa Brooklyn eftir Jonathan Lethem sem Bjartur gaf út sumarið 2007.

Fram kemur í tilkynningu frá Bandalagi þýðenda og túlka að það sem geri skáldritið óvenjulegt og óvenjuerfitt í þýðingu sé maðurinn sem talar í bókinni en er með tourette-áráttuhegðun sem einkum kemur fram í máli hans.

„Málsnið einstaklinga með tourette er ekki hægt að þýða, það verður að endurskapa á nýja tungumálinu, og þetta gerir Eiríkur Örn af skáldlegri fimi," segir í tilkynningunni. Skapandi þýðing af þessu tagi sé í rauninni hliðstæð höfundskap.

„Dómnefndin vill að auki nefna sérstaklega þýðingarafrek Friðriks Rafnssonar sem nú hefur snúið öllum skáldsögum Milans Kundera á íslensku, auk ritgerða hans um bókmenntir. Það er dýrmætt fyrir íslenska lesendur að fá að fylgjast með jafnmikilvægum erlendum höfundi og Kundera, nánast samstiga lesendum hans á frummálinu. Í rauninni ætti að veita sérstaka viðurkenningu fyrir slíka vinnu," segir einnig í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×