Innlent

Fasteignasalan Domus styður langveik börn

Linda Björk Stefánsdóttir og Ragna Marínósdóttir.
Linda Björk Stefánsdóttir og Ragna Marínósdóttir. MYND/Ragnar Örn Egilsson

Domus fasteignasala og Umhyggja - félag langveikra barna hafa hafið samstarf sem hefur það að markmiði að starfsmenn Domus veiti félagsmönnum Umhyggju aðstoð og stuðning er veikindi barna valda breyttum þörfum í húsnæðismálum.

Domus fasteignasala býður félagsmönnum Umhyggju ráðgjöf á sviði fasteignaviðskipta sem felst meðal annars í að verðmeta núverandi húsnæði fólks og veita upplýsingar um verð húsnæðis sem mætir nýjum þörfum fjölskyldunnar. Einnig kannar Domus hvaða lánamöguleikar eru fyrir hendi á hverjum tíma.

Stuðningur Domus við Umhyggju er jafnframt fólginn í því að félagið sjálft getur úthlutað sölumeðferðum til félagsmanna sinna án þess að til greiðslu komi fyrir þjónustuna.

Greiður aðgangur að sérfræðiþekkingu

Framkvæmdastjóri Umhyggju, Ragna Marínósdóttir, telur að með þessum samningi sé uppfyllt þörf félagsmanna fyrir mikilvæga þjónustu sem hingað til hefur ekki verið í boði í gegnum félagið. Samningurinn veiti félagsmönnum greiðan aðgang að mikilvægri sérfræðiþekkingu auk þess sem þeir geti sparað sér umtalsverðar fjárhæðir þegar skipt er um húsnæði.

Linda Björk Stefánsdóttir, löggiltur fasteignasali hjá Domus, segir hugmyndina að þessu samstarfi hafa kviknað í tengslum við stefnumótunarvinnu fyrirtækisins. Ein af niðurstöðum þeirrar vinnu var að sett voru fram gildi fyrirtækisins sem starfsmönnum ber ávallt að hafa í huga í samskiptum sínum við viðskiptavini. Eitt þessara gilda er einmitt umhyggja, en umhyggja fyrir fólki og aðstæðum þess í fasteignaviðskiptum er afar mikilvæg vegna þess að um flókin viðskipti er að ræða og miklir fjármunir í húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×