Innlent

Dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn fatlaðri stúlku

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann, Sveinbjörn R. Auðunsson, í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gagnvart sautján ára fatlaðri stúlku. Hann var ákærður fyrir að hafa notfært sér að hún gat ekki spornað gegn verknaðinum sökum andlegra annmarka og líkamlegrar fötlunar.

Brotin áttu sér stað í nóvember árið 2006 en þá var maðurinn afleysingabílstjóri hjá Ferðaþjónustu fatlaðra. Maðurinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa haft kynferðismök við stúlkuna en neitaði því að hafa notfært sér andlega annmarka hennar og líkamlega fötlun til að koma fram vilja sínum.

Dómurinn komst hins vegar að því að manninum hafi ekki getað dulist að stúlkan ætti við andlega annmarka að stríða. Því yrði hann sakfelldur fyrir brotið.

Maðurinn hafði ekki komist í kast við lögin áður og var meðal annars horft til þess. Þá segir dómurinn einnig að maðurinn hafi í tvígang brotið gegn persónu- og kynfrelsi 17 ára þroska- og hreyfihamlaðrar stúlku sem honum var trúað fyrir sem afleysingarbílstjóra hjá Ferðaþjónustu fatlaðra. Auk dómsins var hann dæmdur til að greiða stúlkunni átta hundruð þúsund í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×