Innlent

Meirihlutasamstarf í Bolungarvík rætt seinna í dag

Breki Logason skrifar
Elías Jónatansson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Bolungarvík.
Elías Jónatansson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Bolungarvík.

Elías Jónatansson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Bolungarvík segist eiga í þreifingum við A-listann um hugsanlegt meirihlutasamstarf í bænum. Meirihlutasamstarfið í bæjarstjórninni sprakk í gær. Annar viðræðufundur er á dagskrá í dag.

Í Bolungarvík hefur verið meirihlutasamtarf K-lista og A-lista, sem er klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokki, en það samstarf sprakk í gær. Anna Guðrún Edvardsdóttir oddviti A-lista sleit samstarfinu og hefur sagt ástæðuna vera of mikil umsvif oddvita K-listans í bænum. Strax í gærkvöldi hitti Anna Guðrún síðan Elías á fundi og var farið yfir stöðuna sem upp er komin.

„Við erum nú bara að taka stöðuna og erum aðallega í gagnaöflun. Það er verið að vinna ársreikning fyrir bæjarfélagið sem er nánast tilbúinn og erum því að taka púlsinn á því. Þetta gerist hratt og því þótti okkur eðlilegt að taka stöðuna á fjármálunum áður en lengra er haldið," segir Elías sem er í lykilstöðu í bænum eftir stjórnarslitin.

Elías vill þó lítið gefa upp um skoðun sína á ástæðum stjórnarslitanna. „Eins og ég hef sagt við þær stöllur báðar þá vil ég ekki blanda mér inn í þeirra mál," segir Elías sem ætlar að hitta Önnu Guðrúnu á fundi aftur í dag.

Hann segir ekkert hafa verið rætt hvort Grímur Atlason bæjarstjóri muni koma til með að sitja áfram við hugsanleg stjórnarskipti.

„Það hafa engar ákvarðanir verið teknar nema að við ætlum að hittast aftur í dag, þetta gerist ekkert hraðar þar sem einungis er hægt að gera eitt í einu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×